Norræna samstarfið og dauðinn

Höfundur: Sigurjón Unnar Sveinsson

Um miðja Jónsmessunótt, í yfirgefnu húsi, hittast tveir menn fyrir tilviljun. Allt um kring er fólk dauðadrukkið. Sumt svo drukkið að það deyr þegar það drukknar í vötnunum í kring. Báðir mennirnir stefna að því sama… að deyja. Þetta gerist í Finnlandi.

Þannig byrjar hin stórkostlega bók ‘Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð’ eftir Arto Paasilinna.

Bókin er mín uppáhaldsbók vegna þess að hún er uppfull af ótrúlegum örsögum um sigur mannsandans í erfiðum heimi. Arto Pasilinna er svo minn uppáhalds höfundur vegna þess að skrif hans eru allt í senn: lifandi, fyndin og upplífgandi þó svo hann leiki sér með erfið umfangsefni eins og dauðann sjálfan. Sögurnar hans eru lygilegar en ekki svo lygilegar að þær verða ótrúverðugar.

Honum tekst nefnilega oft að fanga það hve ótrúlegt líf okkar í raun og veru er. Ég meina, ef ég myndi skrifa ævisögu mína myndi enginn trúa helmingnum af því sem satt er, en aldrei myndi ég skrifa um það.

Einu sinni tók ég þátt í norrænu samstarfi sérfræðinga í atvinnumálum á vegum Nordisk Velfærd Center.

Fyrsti fundurinn var í Helsinki og þangað tók ég auðvitað með mér bók eftir Arto Paasilinna. Finnsk bók í Finnlandi. Sniðugur.

Rétt fyrir fyrsta fund sat ég einn í matsal Skandia Hótel í Helsinki og var algerlega niðursokkinn í bókina. Persóna í bókinni var að deyja og Paasilinna tókst að gera það fyndið… tragíkómískt. Týpískt Arto Paasilinna.

En þá var mér allt í einu kippt inn í lífið og raunveruleikann þegar ég fékk blíðlegt klapp á öxlina. Kona, rúmlega fimmtug, kurteis og góðlátleg talaði við mig á finnsku. Ég gat því miður ekki svarað á hennar tungumáli en þegar ég svaraði, eins og maður gerir alltaf á Norðurlöndunum, -á ensku- greip skyrtuklæddur maður sem sat andspænis henni orðið og sagði að hún hafi verið að spyrja mig hvað í ósköpunum væri svona fyndið. Hann talaði ensku.

Ég hafði greinilega hlegið upphátt og truflað fólkið. Ég svaraði: Ég: æ fyrirgefið… ég ætlaði ekki að trufla ykkur… ég er bara að lesa svo frábæra bók… og ein persónan var að deyja.
Hann: Deyja…
Ég: Já, sko… þetta er bók um sjálfsmorð… mjög fyndin.
Hann: fyndin…
Ég: Já… Þetta er finnsk bók um dauðann og lífið. Stórkostleg bók um hve fallegt lífið raunverulega er, þrátt fyrir að vera dökk. Þetta eru svo ótrúlegar andstæður. Kannski þar með svolítið mikið norræn. Ég hef lesið hana oft.
Hann: Nú… ha… finnsk… Um dauðann… Það er alltaf sama ruglið í þessum rithöfundum.

Samtalið varð ekki lengra því þarna fattaði ég að ég væri orðinn of seinn á fundinn og rauk af stað. Ég þakkaði parinu fyrir spjallið.

Þegar ég rauk af stað sprungu þau úr hlátri.

Ég kippti mér ekki upp við það. Það er gaman þegar það er gaman. Þau máttu alveg hlæja að skrýtna túristanum sem hlær að dauða finnskra skáldsagnapersóna.

Ég rauk á fundinn og hitti þar í hurðinni finnskan kollega sem braut ísinn með að benda á bókina sem ég hélt á og spurði hvað ég væri að lesa.

Ég sagðist vera að lesa finnska bók, um dauðann og lífið. Hinn harði finnski ráðuneytisstarfsmaður virtist ekki mýkjast við það og sagði:

‘Ég les ekki neitt finnskt. Það er alltaf sama ruglið í þessum rithöfundum’

Ég: Ha… í alvöru… þú verður að gefa allavega þessum höfundi séns. Hann heitir Arto Paasilinna.

Finninn svaraði: Ha í alvöru??!?… Ótrúleg tilviljun.

Ég: Tilviljun?!?

Finninn: Já, sko… hann er er hérna í húsinu… Og já… Kíktu bara afturfyrir þig… Hann er þessi í bláu skyrtunni…