Höfundur: Þorvaldur Örn Árnason
Það mun hafa verið árið 1972. Íslendingafélagið í Þrándheimi, sem taldi u.þ.b. 70 félagsmenn, hafði fengið úthlutað ófullgerðum kjallara á stúdentagarðinum Moholt. Kjallari þessi var hálffullur af mold og þurftu félagsmenn að bera og keyra út mikla mold, steypa gólf og leggja rafmagn. Margir þeirra voru nemendur við tækniháskólann sem þá hét NTH og kunnu ýmislegt fyrir sér í að byggja og innrétta hús.
Sú stund nálgaðist að það þyrfti að mála húsnæðið. Þá datt okkur það snjallræði í hug að skrifa heim til málningarverksmiðjunnar Hörpu og biðja þá um að gefa okkur fáeinar fötur af Hörpusilki. Við skrifuðum fallegt bréf, settum í umslag og sendum. Og viti menn, nokkrum vikum seinnta fengum við senda málningu ásamt svarbréfi. Í umslaginu voru nokkur gömul, notuð frímerki og í bréfinu voru þau afþökkuð, sögðust þeir Hörpumenn ekki vilja slíka umbun þó þeir gerðu fólki greiða.
Þá rann upp fyrir okkur að við höfðum sett bréfið til þeirra í umslag þar sem við hjónin höfðum safnað í gömlum frímerkjum! Við hlóum eilítið vandræðalega.
Málningin fór síðan á veggina og kjallarinn á Móholt var mikið notað félagsheimili næstu árin þar sem íslenskir og norskir námsmenn blönduðust vel.