Norrænt samstarf í 100 ár

Norræna félagið 100 ára


Í tilefni aldarafmælisins mun Norræna félagið beita sér fyrir því að allt árið 2022 verði helgað norrænu samstarfi, norrænni vitund, menningu og samkennd.

Þann 29. september 2022 verða liðin 100 ár frá stofnun Norræna félagsins á Íslandi.

Markmið félagsins er að efla norrænt samstarf á öllum sviðum samfélagsins, einkum í félags-, menningar- og umhverfismálum og styrkja vináttuböndin við frændur okkar á hinum Norðurlöndunum.


Norræna félagið starfar í deildum víða um land og þær standa fyrir ýmsum viðburðum. Félagið annast framkvæmd margvíslegra norrænna verkefna, s.s. upplýsingaverkefnisins Info norden, Nordjobb vinnumiðlun fyrir ungt fólk og Norrænu bókmenntavikunnar. Norræna félagið  vinnur með Þjóðræknisfélagi Íslendinga að Snorraverkefninu, sem gefur ungu fólki af íslenskum ættum í Kanada og Bandaríkjunum möguleika á að heimsækja Ísland og kynnast landi og þjóð, og gerir íslenskum ungmennum kleift að heimsækja Íslendingabyggðir vestan hafs. Skrifstofa Norræna félagsins aðstoðar fjölda manns í viku hverri um flest það er varðar norræn málefni, stór og smá.

Norrænu félögin eiga rót sína að rekja til hugsjóna og stefnu sem uppi var á Norðurlöndunum í lok 19. aldar. Skandinavisminn var stjórnmálahreyfing sem boðaði sameiningu eða stóraukið samstarf landanna byggt á sameiginlegri menningu þeirra og sögu. Í byrjun 20. aldar var stjórnmálaástandið í Evrópu mjög ótryggt sem varð m.a. til þess að konungar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar ákváðu að efna til formlegs samstarfs milli ríkjanna. Í desember 1914 undirrituðu þeir yfirlýsingu um hlutleysi Norðurlandanna í fyrri heimsstyrjöldinni sem þá var nýhafin. Í framhaldi af því hófst samstarf hinna almennu borgara sem leiddi til stofnunar Norræna félagsins fljótlega eftir lok styrjaldarinnar, eða árið 1919 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, árið 1922 á Íslandi og 1924 í Finnlandi. Norræna félagið í Færeyjum var stofnað árið 1951, á Álandseyjum 1970 og í Grænlandi 1991. Norrænu félögin eiga með sér öflugt samstarf innan Sambands Norrænu félaganna, FNF (Foreningerne Nordens Forbund), sem var stofnað 1965.

Norrænu félögin áttu sinn þátt í því að sameiginlegu vegabréfasvæði var komið á fót með Norræna vegabréfasambandinu (1957), sameiginlega norræna vinnumarkaðinum (1954) og samþykkt norræna tungumálasáttmálans (1981) en hann fjallar um rétt okkar til að nota eigið tungumál í samskiptum við yfirvöld annarra Norðurlanda. Hann varð seinna að norræna sáttmálanum um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu (1994). Þessir samningar veita Norðurlandabúum rétt til að fara frjálsir ferða sinna um Norðurlönd, setjast þar að og sækja vinnu um leið og menn geta haldið sínum félagslegu réttindum. Þetta gerðist löngu áður en Evrópa var opnuð með Evrópusambandinu og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Hið nána norræna samstarf varð ekki til á einum degi. Þjóðþing Norðurlanda höfðu lengi haft náið samstarfs sín á milli áður en Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og náið samstarf ríkisstjórna landanna átti sér talsverðan aðdraganda áður en það var gert formlegt með stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Á undan þessu öllu höfðu þjóðirnar sjálfar komist að nauðsyn þess að vinna saman og halda vinatengslum með stofnun Norræna félagsins. Því má með réttu segja að norrænt samstarf hafi þrjár meginstoðir: Norrænu félögin, Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina. Vissulega fer fram fjölbreytt og öflugt norrænt samstarf á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þessir þrír aðilar starfa að norrænu samstarfi á grundvelli þeirrar meginhugmyndar að Norðurlönd eigi eitthvað mikilvægt sameiginlegt og eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta við lausn ýmiskonar mála.

Samstarf Norðurlanda hefur notið þess frá upphafi að eiga sér víðtækan, þverpólitískan og styrkan stuðning fólksins sem byggir Norðurlönd. Sjaldan hefur verið deilt af sannfæringu um hvort norrænt samstarf eigi rétt á sér, heldur einungis um leiðir að settum sameiginlegum markmiðum.

Í tilefni aldarafmælisins mun Norræna félagið beita sér fyrir því að allt árið 2022 verði helgað norrænu samstarfi, norrænni vitund, menningu og samkennd. Þetta verður gert með ýmsum viðburðum sem félagið mun standa fyrir en þó fyrst og fremst með því að vekja athygli almennings, stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á hinum fjölbreyttu viðburðum og verkefnum sem eiga sér stað hér á landi og hafa einhver tengsl við Norðurlöndin. Ætlunin er að búa til yfirlit með upplýsingum um það sem er á döfinni og snertir flest svið þjóðlífsins og tengist annað hvort Norðurlöndum í heild eða einu eða fleiri norrænu landanna. Með þessu vonumst við til að vekja áhuga Íslendinga og sýna hversu mikilvægu hlutverki hið norræna og norræn samvinna gegnir í íslensku samfélagi.

Norræna félagið hefur einnig hafið söfnun á stuttum persónulegum frásögnum – örsögum – sem eiga rætur sínar að rekja til norrænnar samskipta. Fólk er hvatt til að senda slíkar frásagnir af persónulegri upplifun sinni af norrænu samstarfi á netfangið orsogur@norden.is.

Sett hefur verið á fót heimasíðan www.norden100.is þar sem hægt verður að nálgast allar upplýsingar tengdar afmælisárinu og skrá viðburði og verkefni.


Hrannar Björn Arnarson, formaður Norræna félagsins
Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, formaður 100 ára afmælisnefndar Norræna félagsins.