Höfundur: Dúddi
Ég er að drukkna. Kuldinn er svo mikill að lungun herpast saman. Þegar loftið pressast úr þeim þá er erfitt að halda sér á floti. Ég get ekki séð að ég nái landi. Ég streytist við að gera bringusundstökin sem ég lærði í grunnskóla fyrir einhverjum áratugum síðan en líkaminn er eins og steinn og vill bara sökkva. Kuldinn tekur líka alla tilfinningu úr höndum og fótum svo ég er ekki viss um hvað þessir limir eru í raun að gera þó heilinn gefi skipanir ótt og títt.
Er það þess virði að drukkna? Þegar maður er í útlöndum þá fer maður að synda í sjónum. Það gera allir. Kannski samt ekki mjög gáfulegt rétt fyrir utan Gautaborg í maí og sjórinn ískaldur.
En ég er í útlöndum… og ég syndi… í sjónum. Kannski drukkna í sjónum ef ég krókna ekki úr kulda fyrst.
Ég finn loks að ég botna. Mér er borgið. Ég staulast í land og lofa sjálfum mér því að ég fer aldrei til Tromsö í janúar.