Höfundur: Þóra Hinriksdóttir
Hús að láni á Sjálandi í 10 daga og eftir að hafa kannað nærumhverfið, banka og matvöruverslanir er kominn tími á að kanna gönguleiðir nær og fjær heimilinu, hvað stendur til boða þennan stutta tíma. Mikið náttúrusvæði með trjám blómum, vötnum og fuglum, flott karakter rík hús með stórum lóðum næst vötnunum og gefa umhverfinu vissan sjarma.
Við skötuhjúin heimsækjum meðal annars byggðasöfn og “Vedbæk fundene” steinaldasafn um fornar mannvistaleifar í Danmörku. En svo er líka nauðsynlegt að fara í smá óvissuferðir í leiðinni. Á göngu okkar meðfram, segjum bara þjóðvegi, erum við allt í einu komin út í sveit með hestum á beit.
Sveit þar sem við göngustígana vaxa brómber, hindiberjarunnar og kirsuberjatré með þroskuðum berjum sem hreinlega biðja um að vera týnd og eru því étin með ánægju. En erum þó ekki með öllu laus við öfund út í land sem hýsir og þroskar þvílíkan munað utanhúss.
Epli og plómur reyndust þó ekki hafa náð þroska svo ekki gátum við notið ferskleika þeirra að þessu sinni. Ilmandi svartyllir með sín smáu svörtu ber í klösum reyndust einnig gómsæt.
Seinna lærði ég að þau séu talin eitruð, þó er ég enn í fullu fjöri, kannski af því að ég í sakleysi mínu og fáfræði vissi ekki um görótt áhrif þeirra.